Harpa Rut stofnaði facebook-hópinn Jákvæður janúar til að hvetja Íslendinga til jákvæðni og kenna þeim að elska sjálfa sig. Fyrir sjö árum var hún sjálf frekar neikvæð týpa og óhamingjusöm í eigin skinni, en tók sig á með góðum árangri. Nú vill hún hjálpa öðrum.

Hugmyndin kviknaði held ég bara hérna heima þegar ég var að velta fyrir mér hvað ég gæti gert til að fá Íslendinga til að vera jákvæðari og læra að elska sjálfa sig um leið,“ segir Harpa Rut Heiðarsdóttir, fangavörður og einkaþjálfari, sem stofnaði í ársbyrjun facebook-hópinn Jákvæður janúar, sem nú telur um þúsund meðlimi.

Brosið smitar

Harpa Rut segir hópinn vera fyrir alla þá sem eru að leita sér að jákvæðri hvatningu, hvort sem það er í daglegu lífi, eða tengda heilsu og lífsstíl. Hún tekur þó fram að hópurinn sé alls ekki bara fyrir neikvætt fólk sem þurfi að sjá jákvæðu hliðarnar á hversdeginum.

„Svo innilega ekki. Þessi hópur á að hvetja meðlimina til að vera jákvæðir og fá þá til að smita út frá sér jákvæðnina. Ég vil alls ekki að þessi flotti hópur sé stílaður inn á neikvætt fólk, því að allir sem eru í honum eru þar á sömu forsendum, að byrja árið með bros á vör, sama hvort þeir eru vanir að gera það eða ekki. Ég allavega held að eitt bros smiti frá sér fleiri bros,“ segir Harpa sem er dugleg að skrifa hvetjandi og jákvæð innlegg í hópinn til að minna fólk á það fallega og góða í lífinu. Þá minnir hún fólk á að hrósa, bæði sjálfu sér og öðrum. Og þetta virðist vera að virka því hún hefur fengið fjölmörg skilaboð þar sem fólk tjáir henni hvað það þurfti mikið á því að halda að komast í svona hóp.

Dró sig niður með neikvæðu tali

Sjálf hefur hún ekki alltaf verið jákvæða týpan, svo sannarlega ekki. „Fyrir um sjö árum var eins og það kviknaði á ljósaperu hjá mér og ég sá hversu neikvæð manneskja ég var. Ég var allt of þung líkamlega og andlega. Allt of óhamingjusöm í mínu eigin skinni. Ég tuðaði yfir öllu og sá aldrei jákvæðu hliðarnar á hlutunum. Ég dró mig niður með neikvæðu tali og þar fram eftir götunum. Þar til einn daginn, þá fannst mér ég bara leiðinleg og mig langaði ekki að vera leiðinleg manneskja. Hvað var til ráða? Jú, að breyta sjálfri mér. Það var eitthvað sem ég þurfti að gera sjálf, því það gerir það enginn fyrir mann.“

Harpa lagði af stað í það verkefni að breyta hugsunarhættinum og gera eitthvað í sínum málum með frábærum árangri. Og nú vill hún bera út boðskapinn og deila jákvæðninni með öðrum. „Ætli ég vilji ekki kveikja á fleiri ljósaperum og halda ljómanum í þeim sem nú þegar er kveikt á.“

Harpa heldur úti líflegum og skemmtilegum snapchatreikningi ásamt kærastanum sínum, Vigfúsi Dan Garshorn Christiansen, þar sem jákvæðnin er í fyrirrúmi: lifsstillharpa.